Skip to main content
Endurvinnslan hf. var stofnuð árið 1989, skv. lögum nr. 52/1989. Ástæða stofnunar félagsins var náttúru- og umhverfisvernd þó vonir stæðu til að hægt yrði að endurvinna umbúðirnar sem smám saman varð að veruleika. Endurvinnslan sér um móttöku, ásamt umboðsmönnum sínum, allra einnota drykkjarvöruumbúða hérlendis, greiðir út skilagjald, undirbýr til útflutnings og selur til endurvinnslu. 58 starfstöðvar starfa fyrir félagið um allt land.
Ísland var fyrst í heiminum til að koma á skilagjaldskerfi á landsvísu fyrir allar einnota drykkjarvöruumbúðir. Frá því fyrirtækið hóf starfsemi hefur árangur söfnunar verið með því besta sem gerist og hefur verið að nálgast 90% skil á ársgrundvelli.
Framlag Endurvinnslunnar til umhverfisverndar er verulegt því vegna skilagjaldsins eru einnota drykkjarumbúðir ekki lengur rusl sem liggur á víðavangi heldur endurvinnanleg verðmæti sem margir hafa fjárhagslegan hag af. Allir geta lagt sitt af mörkum til að halda landinu hreinu, auka nýtingu auðlinda jarðar og bæta viðhorfið til verðmæta, jafnframt því að skapa gjaldeyristekjur.
Endurvinnslan selur úr landi um 1700 tonn af áli á ári og 1.300 tonn af plasti. Gleri er safnað í Helguvík og verða flutt út 3.000 tonn í senn a.m.k. 5.000 tonn á ári. Ekki hefur tekist að finna farveg til að endurnýta eða endurvinna gler hér á landi vegna kostnaðar og lítils magns.  Þó að ekki sé enn búið að skylda endurvinnslu glers á Íslandi, tóku framleiðendur sig til og samþykktu að endurvinna gler í skilakerfinu. Slíkt er í takt við stefnu þeirra um hringrásarhagkerfið.

Jafnlaunavottun

Þann 19. desember árið 2013 hlaut Endurvinnslan hf. Jafnlaunavottun VR. Vottunin staðfestir að hjá Endurvinnslunni fá karlar og konur sömu laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.

Endurvinnslan skuldbindur sig til að greiða jöfn laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf, óháð kyni, þjóðerni eða öðrum órökstuddum viðmiðum. Allir stjórnendur Endurvinnslunnar skuldabinda sig til þess að framfylgja henni en ábyrgðaraðili er framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Endurvinnslan skuldbindur sig til þess að :

  • Gera stöðugar endurbætur hvað varðar jafnlaunakerfið í heild sinni
  • Fylgja lögum og reglum um launagreiðslur, kjör og jafnrétti
  • Framkvæma launagreiningu árlega
  • Bregðast við athugasemdum um órökstuddan launamun
  • Framkvæma reglubundna innri úttekt á jafnlaunakerfi fyrirtækisins
  • Kynna starfsfólki jafnlaunastefnuna

Kuðungurinn

Endurvinnslan hf. hlaut umhverfisviðurkenninguna Kuðunginn 2016.

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir valinu á Endurvinnslunni sem handhafa Kuðungsins segir m.a. að umhverfismálin hafi verið samofin starfsemi fyrirtækisins frá upphafi enda til þess stofnað til að taka á því umhverfisvandamáli sem fylgdi auknu magni umbúða í umhverfi okkar. Fyrirtækið hefur hins vegar ekki látið þar við sitja heldur einnig tekið eigin umhverfismál föstum tökum og hlaut meðal annars nýverið ISO14001 umhverfisvottun þar sem markvisst er reynt að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum starfsemi fyrirtækisins. Ætla má að kolefnisávinningur af starfsemi fyrirtækisins sé á við það að um 3000 bifreiðar væru fjarlægðar af götum landsins. Auk þess hvetur fyrirtækið eigin starfsmenn til að nýta sér vistvæna samgöngumáta

Samfélagslegt hlutverk

Frá stofnun Endurvinnslunnar hefur fyrirtækið lagt metnað í að styðja við góð málefni. Fjölmargir aðilar treysta á tekjur af umbúðasöfnun í starfsemi sinni eins og t.d. íþróttafélög, björgunarsveitir, skátahreyfingin ofl.

Endurvinnslan leitast einnig við að hafa atvinnuskapandi áhrif fyrir verndaða vinnustaði og er nú í samstarfi við m.a. Skáta, Dósasel í Keflavík, Fjöliðjuna á Akranesi og í Borganesi , Heimaey í Vestmannaeyjum og Vesturafl Ísafirði.

Með umbúðasöfnun hefur tekist að forða landinu frá því að umbúðir liggi á víðavangi eða fylli ruslahauga þannig að umbúðasöfnun er mikið átak í náttúruvernd. Endurvinnsla sparar einnig hráefni og orku sem annars færi í að frumvinna efni á nýjan leik.

Í afgreiðslu Endurvinnslunnar hf. að Knarrarvogi 4, Skútahrauni 11 og Dalvegi 28 er hægt að gefa þá upphæð sem fæst fyrir safnaðar umbúðir til góðgerðarmála með notkun þar til gerðra góðgerðakorta. Árlega nemur slík söfnun hundruðum þúsunda. Þessi félög eru;

Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur
Fjölskylduhjálp Íslands
Rauði kross Íslands
Hekluskógar

Umhverfisstefna - ISO 14001

Endurvinnslan er með 14001 vottun.

Umhverfisstefna Endurvinnslunnar

  • Endurvinnslan mun leitast við að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni með því að þjálfa starfsfólk í að vinna eftir umhverfisstaðlinum ISO 14001 með það að leiðarljósi að endurnýta og endurnota sem mest af því sem fellur til við starfsemi fyrirtækisins.
  • Endurvinnslan hefur þá stefnu að ná og viðhalda góðu skilahlutfalli drykkjarumbúða og þar með að endurvinna og endurnýta sem mest af því hráefni sem er í drykkjarumbúðum með því að upplýsa viðskiptavini um umhverfisgildi endurvinnslu.
  • Endurvinnslan vill hvetja starfsfólk til þess að ástunda hreinlæti og góða umgengni í starfi og velja að versla vörur og þjónustu sem eru umhverfisvænar eins og kostur er.
  • Endurvinnslan mun fylgja gildandi lögum og reglugerðum í umhverfismálum.
  • Endurvinnslan leggur áherslu á að fylgja kröfum um stöðugar umbætur
    og mengunarvarnir. Þýðingarmiklir umhverfisþættir eru vaktaðir og árlega eru sett markmið um umbætur á þessu sviði. Markmiðin eru endurskoðuð með hliðsjón af árangri og stöðugt er unnið að umbótum.
  • Allir starfsmenn skulu þekkja helstu atriði til að viðhalda og tryggja öruggan rekstur tækja og tóla til að hvetja viðskiptavini til að skila drykkjarumbúðum. Að sjá til þess starfsumhverfi sé öruggt og heilsusamlegt fyrir starfsmenn og aðra aðila sem tengjast starfseminni.
  • Endurvinnslan hf. mun kolefnisjafna eigin rekstur og er þá miðað við hita og rafmagn í því húsnæði sem notað er til að vinna drykkjarumbúðir til útflutnings, flugferðir starfsmanna, bifreiðanotkun eigin bíla og notkunar starfsmanna á bifreiðum til og frá vinnu og vegna sorps sem myndast við reksturinn.

Persónuverndaryfirlýsing

Persónuverndaryfirlýsing Endurvinnslunnar

  1. Almennt

Endurvinnslan hf., kt. 610789-1299, Knarrravogi 4, 104 Reykjavík, (hér eftir „Endurvinnslan“, „fyrirtækið“, „við“), er annt um friðhelgi einstaklinga og tekur persónuvernd mjög alvarlega. Fyrirtækið leggur mikla áherslu á að meðferð persónuupplýsinga sé ávallt í samræmi við gildandi persónuverndarlöggjöf. Í þessari tilkynningu má sjá hvaða persónuupplýsingum fyrirtækið safnar um einstaklinga vegna starfsemi sinnar og í hvaða tilgangi. Þá má hér finna upplýsingar um aðra viðtakendur upplýsinganna og hvað við geymum þær lengi. Auk þess má hér finna upplýsingar um á hvaða grundvelli Endurvinnslan safnar persónuupplýsingum, hvaða réttinda einstaklingar njóta og fleiri mikilvægar upplýsingar sem tengjast lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.

  1. Hvað eru persónuupplýsingar og vinnsla persónuupplýsinga?

Með persónuupplýsingum er átt við allar upplýsingar sem hægt er að rekja til tiltekins einstaklings, svo sem upplýsingar um nafn, kennitölu, heimilisfang, netfang, símanúmer, fjárhag, heilsufar, IP tölu og fleira. Í 2. og 3. tl. 3. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga er að finna nánari skilgreiningu á persónuupplýsingum. Með vinnslu persónuupplýsinga er átt við alla meðferð og notkun persónuupplýsinga svo sem söfnun, skráningu, varðveislu, breytingu eða eyðingu. Í 4. tl. 3. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga er að finna nánari skilgreiningu á vinnslu persónuupplýsinga.

  1. Hvernig vinnur fyrirtækið persónuupplýsingar?

Hjá Endurvinnslunni fer vinnsla persónuupplýsinga fram á lögmætum grundvelli og í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018. Fyrirtækið gætir jafnframt að því að persónuupplýsingar séu ekki unnar frekar á þann hátt að vinnslan sé ósamrýmanleg upprunalegum tilgangi vinnslunnar.  Fyrirtækið gætir að því að farið sé að eftirfarandi meginreglum:

1) Að persónuupplýsingar séu unnar með sanngjörnum hætti.

2) Að persónuupplýsingum sé einungis safnað í skýrum tilgangi.

3) Að ekki sé safnað meiri persónuupplýsingum en nauðsynlegt er.

4) Að persónuupplýsingar séu nákvæmar og uppfærðar þegar þörf krefur.

5) Að persónuupplýsingar séu ekki geymdar lengur en þörf er á.

6) Að gætt sé að öryggi persónuupplýsinga með viðeigandi varúðarráðstöfunum.

  1. Um hverja safnar Endurvinnslan persónuupplýsingum?

Í starfsemi Endurvinnslunnar er nauðsynlegt að safna og vinna með persónuupplýsingar um mismunandi hópa einstaklinga. Þær persónuupplýsingar sem fyrirtækið hefur undir höndum geta verið um starfsmenn þess, viðsemjendur, viðskiptavini og aðra þriðju aðila sem nauðsynlegt er að eiga samskipti við.

  1. Hvaða persónuupplýsingum safnar Endurvinnslan um þig?

Endurvinnslan safnar ólíkum persónuupplýsingum um mismunandi hópa einstaklinga eftir því hvaða starfsemi fyrirtækisins er um að ræða. Undir öllum kringumstæðum leitast Endurvinnslan við að safna einungis þeim persónuupplýsingum sem nauðsynlegar eru með hliðsjón af tilgangi vinnslunnar. Endurvinnslan safnar nauðsynlegum upplýsingum um starfsfólk, til dæmis upplýsingum um nafn, kennitölu, heimilisfang, símanúmer, viðveru, laun og fleira. Einnig þarf fyrirtækið að halda til haga nauðsynlegum tengiliðaupplýsingum, svo sem nafni og netfangi, um viðsemjendur og aðra þriðju aðila. Auk þess verður Endurvinnslan að safna nauðsynlegum upplýsingum um viðskiptavini sína, svo sem upplýsingum um nafn, kennitölu, bankareikning og netfangi. Endurvinnslan mun ekki nota netfang viðskiptavina til beinnar markaðssetningar. Að auki safnar Endurvinnslan myndefni úr eftirlitsmyndavélum þar sem finna má persónuupplýsingar.

Í útgreiðslulausnum (app/sjálfsafgreiðslukassar) Endurvinnslunnar er fyrirtækinu nauðsynlegt að vinna upplýsingar um kennitölu og bankareikningsnúmer viðskiptavina til þess að geta greitt skilagjald á skilagjaldsskyldum drykkjarumbúðum sem viðskiptavinir láta af hendi. Endurvinnslan kann einnig að vinna upplýsingar um netfang viðskiptavina hafi þeir kosið að láta það af hendi.

  1. Af hverju safnar Endurvinnslan persónuupplýsingum um þig?

Tilgangurinn með söfnun upplýsinganna er að:

  • Geta efnt samningsskyldu, til dæmis við starfsmenn og viðsemjendur.
  • Geta veitt viðskiptavinum umbeðna þjónustu.
  • Gæta að lögmætum hagsmunum fyrirtækisins, til dæmis með eftirlitsmyndavélum í öryggis- og eignavörsluskyni.
  • Uppfylla lagaskyldu.
  1. Á hvaða lagagrundvelli vinnur Endurvinnslan persónuupplýsingar um þig?

Endurvinnslan safnar og vinnur persónuupplýsingar á eftirfarandi lagagrundvelli:

  • Samþykki þínu.
  • Til að uppfylla samningsskyldu.
  • Til að uppfylla lagaskyldu.
  • Til að gæta að lögmætum hagsmunum fyrirtækisins.
  1. Hve lengi geymir Endurvinnslan persónuupplýsingar um þig?

Endurvinnslan geymir persónuupplýsingar einungis í þann tíma sem nauðsynlegt er fyrir fyrirtækið að hafa þær undir höndum. Þegar ekki er þörf fyrir að hafa persónuupplýsingar undir höndum lengur eyðir fyrirtækið þeim með öruggum hætti.

  1. Frá hverjum safnar Endurvinnslan upplýsingum um þig?

Endurvinnslan safnar persónuupplýsingum frá þér beint. Ef safnað er persónuupplýsingum frá þriðja aðila mun Endurvinnslan eftir fremsta megni leitast við að upplýsa viðkomandi einstakling um það.

  1. Hvenær miðlar Endurvinnslan þínum persónuupplýsingum til þriðju aðila og af hverju?

Endurvinnslan miðlar persónuupplýsingum til þriðju aðila sem ráðnir eru af fyrirtækinu til að vinna fyrir fram ákveðna vinnu, svo sem þjónustuveitenda, umboðsmanna eða verktaka. Í þeim tilfellum gerir fyrirtækið vinnslusamning við viðkomandi aðila. Slíkur samningur kveður meðal annars á um skyldu hans til að fylgja fyrirmælum Endurvinnslunnar um meðferð persónuupplýsinga og er honum óheimilt að nota þær í öðrum tilgangi. Jafnframt ber honum skylda til að tryggja öryggi upplýsinganna með viðeigandi hætti. Endurvinnslan miðlar einnig upplýsingum til þriðju aðila þegar skylda stendur til þess samkvæmt lögum. Endurvinnslan miðlar ekki netfangi viðskiptavina til markaðssetningar til þriðju aðila.

  1. Flutningur persónuupplýsinga út fyrir Evrópska efnahagssvæðið

Endurvinnslunni er kunnugt um að ströng skilyrði gilda um flutning persónuupplýsinga til ríkja sem staðsett eru utan Evrópska efnahagssvæðisins. Fyrirtækið gerir það ekki undir neinum kringumstæðum nema fullnægjandi heimild standi til þess samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.

  1. Réttindi þín

Hafir þú veitt samþykki þitt fyrir vinnslu tiltekinna persónuupplýsinga átt þú rétt samkvæmt lögum um persónuvernd og vinnslu persónupplýsinga nr. 90/2018 að afturkalla samþykki þitt hvenær sem er. Sá réttur hefur þó ekki áhrif á lögmæti þeirrar vinnslu sem fram fór áður en samþykki var afturkallað. Þá nýtur þú einnig annarra réttinda, svo sem réttar til aðgangs að þínum gögnum, réttar til að fá rangar eða villandi upplýsingar leiðréttar, réttar til að persónuupplýsingum um þig verði eytt, réttar til að hindra að unnið verði með persónuupplýsingar um þig og réttar til að flytja eigin gögn. Hafa skal í huga að réttindi þín eru ekki alltaf fortakslaus og kunna að vera háð ýmsum skilyrðum.

  1. Öryggi persónuupplýsinga

Endurvinnslan hefur gripið til viðeigandi tæknilegra og skipulagslegra öryggisráðstafana til að tryggja öryggi persónuupplýsinga í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018. Felur það meðal annars í sér að aðeins þeir starfsmenn hafa aðgang að persónuupplýsingum sem þess þurfa starfs síns vegna. Auk þess stuðlar fyrirtækið að því að starfsmenn fái reglulega viðeigandi fræðslu og þjálfun um öryggismál.

  1. Samskiptaupplýsingar Endurvinnslunnar

Nafn: Endurvinnslan hf.

Heimilisfang: Knarravogi 4, 104 Reykjavík.

Netfang: evhf@evhf.is.

  1. Réttur til að leggja fram kvörtun hjá Persónuvernd

Dragir þú í efa að Endurvinnslan meðhöndli persónuupplýsingar þínar í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 hefur þú rétt til að leggja fram kvörtun hjá Persónuvernd (www.personuvernd.is). 16. Endurskoðun á þessari persónuverndaryfirlýsingu Persónuverndaryfirlýsing þessi getur frá einum tíma til annars tekið breytingum í samræmi við breytingar á viðeigandi lögum og reglugerðum eða ef breytingar eru gerðar á því hvernig Endurvinnslan vinnur með persónuupplýsingar. Eftir að breytingar hafa verið gerðar á persónuverndaryfirlýsingunni taka þær gildi þegar uppfærð útgáfa hefur verið birt á heimasíðu Endurvinnslunnar. Hægt er að fylgjast með hvenær endurskoðun átti sér síðast stað en efst á persónuverndaryfirlýsingunni er upplýst um hvenær persónuvendaryfirlýsingin var síðust endurskoðuð.

Heimsmarkmið SÞ - Okkar markmið

Nr. 5

Endurvinnslan hefur unnið út frá gildum jafnlaunavottunar og jafnrétti kynja í launum og tækifærum í starfi. Kynferðislegt ofbeldi eða misneyting af öðru tagi er ekki liðin í okkar fyrirtæki.

Nr. 12

Endurvinnslan endurvinnur alla hráefnisstraum sem mögulegt er að endurvinna. Markmið um skil í kerfinu eru 90% sem eru með því allra mesta sem gerist í efnisstraumum í heiminum. Til að stuðla að notkun endurunnins plast eru gjöld vegna þess plast lægri. Allir bílar okkar eru rafbílar og eru starfsmenn hvattir til umhverfisvænna samgöngumáta með styrkjum.

Nr. 13

Endurvinnslan vinnur eftir lögum 52/1989 um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur og er því lögbundið til að fylgja þeirri aðgerð. Einnig ber henni að fylgja tilskipunum ESB um ráðstafanir í umhverfismálum er varða drykkjarumbúðir.

Nr. 14 og 15

Með skilagjaldi á drykkjarumbúðir er reynt að koma í veg fyrir að drykkjarumbúðir lendi í viskerfi á landi og í hafinu. Til að kolefnisjafna rekstur fyrirtækisins eru gróðursettar árlega um 3.000 plöntur.